Uppgjör Ísfélags hf. á fyrsta ársfjórðungi 2025
Frá Stefáni Friðrikssyni forstjóra.
Fyrsti ársfjórðungur ársins 2025 bar þess merki að afli skipa félagsins í loðnu var einungis tæp 1.200 tonn sem öll fóru í frystingu. Þetta er annað árið í röð þar sem loðnuvertíðin bregst og það hefur mikil áhrif á rekstur félagsins, starfsmenn þess og samfélögin sem félagið starfar í. Aflabrögð í bolfiski á fyrsta ársfjórðungi voru í lakari kantinum. Verð hefur verið gott og sala afurða hefur gengið vel. Veiðar frystitogarans Sólbergs ÓF gengu vel.
Við fengum afhent glæsilegt uppsjávarskip í maí, sem keypt var af skoskri útgerð. Skipið hefur fengið nafnið Heimaey VE. Það kemur í stað eldra skips með sama nafni, sem hefur verið selt og afhent nýjum eigendum í Noregi.
Fiskmjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum var stækkuð í vetur og verið er að leggja lokahönd á byggingu nýrrar frystigeymslu á Þórshöfn. Talsverðar fjárfestingar í búnaði og tækjum eru fyrirhugaðar á yfirstandandi ári bæði í bolfisk- og uppsjávarvinnslum félagsins.
Allar þessar fjárfestingar, til lands og sjávar, eiga að bæta afkomu félagsins til lengri tíma og munu því auka skattgreiðslur félagsins í framtíðinni, að öllu öðru óbreyttu. Þess má geta að á sl. árum hefur félagið notað tvo þriðju hluta hagnaðarins til fjárfestinga og eru bæði skipafloti og landvinnslur félagsins í fremstu röð.
Þegar ég í lok mars kynnti uppgjör félagsins fyrir árið 2024 gerði ég ítarlega grein fyrir áhyggjum mínum af frumvarpi ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalds, sem eins og komið hefur fram er hreinn landsbyggðaskattur. Nái frumvarpið fram að ganga er áformuð hækkun líkleg til að hafa veruleg áhrif á Ísfélagið og sjávarútveginn í heild og burði hans til að taka þátt í að tryggja góð lífskjör og öflug samfélög á landsbyggðinni. Framganga sjávarútvegsráðherra gagnvart atvinnugreininni og þeim sem þar starfa hefur valdið mér afar miklum vonbrigðum og það læðist að manni sá grunur að ekki sé allt sem sýnist. Það virðist sem að útreikningar ráðuneytisins á veiðigjöldunum séu beinlínis rangir eða forsendur þeirra enda hafa þeir ekki verið neinum aðgengilegir. Þar hefur leyndarhyggjan verið alls ráðandi.
Á einni af glærunum sem fylgja þessari kynningu á rekstri félagsins er sýnt hvernig hærri opinber gjöld hafa áhrif á afkomu félagsins. Þar kemur fram að ef fyrirhugaðar breytingar ná fram að ganga þá muni ríkið taka til sín tæp 69% af öllum hagnaði af veiðum og vinnslu félagsins fyrir kolefnisgjöld, veiðigjöld og tekjuskatt. Útreikningurinn og glæran eru gerð af Deloitte fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.
Meginforsendur fyrir veiðigjaldinu eru sagðar vera þær að verið sé að leggja skatt á hagnað í sjávarútvegi sem fullyrt er að sé umfram það sem gengur og gerist í viðskiptahagkerfinu. Ekki hefur verið sýnt fram á að svo sé. Þá má nefna sem dæmi að ávöxtun eigin fjár Ísfélagsins á sl. ári var einungis 2,9% en á sama tíma var ávöxtun á óverðtryggðri innstæðu hjá íslenskum ríkisbanka um og yfir 7,5%.
Framundan eru talsverðar framkvæmdir í landvinnslum félagsins á árinu, m.a. rafvæðing fiskimjölsverksmiðjunnar í Eyjum. Ákvarðanir um allar þessar framkvæmdir voru teknar í þeirri trú um að skilningur ríkisstjórnarinnar á nauðsyn þess að tryggja samkeppnishæft atvinnulíf væri fyrir hendi.
Um næstu helgi er sjómannadagurinn með allri sinni rómantík og gleði og eftir það tekur við rólegasti tími ársins í rekstri Ísfélagsins. Í lok júní halda uppsjávarskip félagsins til makrílveiða og í framhaldinu til síldveiða. Talsverð bjartsýni ríkir fyrir þessar vertíðir enda er afurðaverð á frosnum uppsjávarfiski hátt um þessar mundir.
Helsta úr starfseminni.
- Félagið var rekið með tapi á fyrsta ársfjórðungi og má það að mestu rekja til lítillar loðnuveiði.
- Gengisbreytingar höfðu mikil áhrif á fjármagnskostnað á tímabilinu.
- Félagið stundaði ekki veiðar í Barentshafi á tímabilinu.
- Markaðir voru góðir fyrir afurðir félagsins.
- Félagið lauk við endurfjármögnun á tímabilinu.
- Uppsjávarafli skipanna var um 2.600 tonn.
- Bolfiskafli skipa félagsins var um 6.000 tonn.
- Framleiddar afurðir voru um 7.500 tonn.
Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins.
- Rekstrartekjur tímabilsins námu 37,3 m.USD.
- Tap á rekstrinum á tímabilinu nam 3,6 m.USD.
- EBITDA-framlegð var 7,3 m.USD eða 19,7% á tímabilinu.
- Heildareignir námu 823,1 m.USD 31.03.2025 og eiginfjárhlutfall var 67,2%.
- Nettó vaxtaberandi skuldir voru 99,6 m.USD í lok fyrsta ársfjórðungs.
- Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var neikvæð um 2,6%
Rekstur.
Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2025 námu 37,3 m.USD, samanborið við 37,1 m.USD á sama tímabili 2024.
Tap á rekstri var 3,6 m.USD á fyrsta ársfjórðungi 2025, samanborið við 1,2 m.USD tap á sama tímabili 2024. Tekjur á tímabilinu voru lægri en væntingar stóðu til, fyrst og fremst vegna þess að lítil loðna var veidd á vetrarvertíð 2025. Gengisbreytingar höfðu mikil áhrif á fjármagnskostnað á tímabilinu.
EBITDA-framlegð á fyrsta ársfjórðungi 2025 var 7,3 m.USD eða 19,7% af rekstrartekjum, samanborið við 6,1 m.USD eða 16,3% af rekstrartekjum á sama tímabili 2024.
Efnahagur.
Heildareignir félagsins voru 823,1 m.USD þann 31.03.2025, þar af voru fastafjármunir 690,7 m.USD og veltufjármunir 132,4 m.USD.
Í árslok 2024 voru heildareignir 778,1 m.USD, þar af voru fastafjármunir 682,9 m.USD og veltufjármunir 95,1 m.USD. Heildareignir hækkuðu um 45 m.USD á fyrsta ársfjórðungi 2025. Rekja má hækkunina að mestu til hækkunar á handbæru fé og hækkunar á viðskipta- og skammtímakröfum. Hækkun á handbæru fé má að mestu rekja til endurfjármögnunar félagsins, sem fór fram í janúar.
Eigið fé Ísfélagsins var 553 m.USD þann 31.3.2025, en var 550,7 m.USD í lok árs 2024. Eiginfjárhlutfallið var 67,2% þann 31.03.2025 en í lok árs 2024 var eiginfjárhlutfallið 70,8%.
Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins voru 99,6 m.USD þann 31.03.2025 en voru í árslok 2024 90,7 m.USD.
Sjóðstreymi.
Á fyrsta ársfjórðungi 2025 var handbært fé frá rekstri 2,3 m.USD, samanborið við 11,4 m.USD á sama tímabili 2024. Fjárfestingarhreyfingar á fyrsta ársfjórðungi voru neikvæðar um 6,1 m.USD. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 29,7 m.USD. Hækkun á handbæru fé á fyrsta ársfjórðungi 2025 var 28,5 m.USD, að teknu tilliti til gengismunar og var handbært fé í lok tímabilsins 64,7 m.USD.
Meginniðurstöður í íslenskum krónum á fyrsta ársfjórðungi 2025.
Þegar helstu niðurstöður úr rekstrarreikningi tímabilsins eru færðar yfir í íslenskar krónur á meðalgengi fyrsta ársfjórðungs 2025 (138,45) voru rekstrartekjur félagsins 5.164 milljónir króna, rekstrarhagnaður 423 milljónir króna, EBITDA-framlegð var 1.016 milljónir króna og tap eftir skatta 499 milljónir króna.
Sé efnahagur félagsins í lok fyrsta ársfjórðungs 2025, færður í íslenskar krónur á lokagengi tímabilsins (131,95), eru heildareignir 108,6 milljarðar króna, fastafjármunir 91,1 milljarðar króna og veltufjármunir 17,5 milljarðar króna. Eigið fé í lok fyrsta ársfjórðungs 2025 var 73 milljarðar króna og skuldir og skuldbindingar 35,6 milljarðar króna.
Hluthafar.
Lokaverð hlutabréfa í lok fyrsta ársfjórðungs var 135,8 kr. á hlut og var markaðsvirði félagsins þá 111 milljarðar króna. Fjöldi hluthafa var 3.202.
Samþykkt árshlutareiknings.
Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Ísfélagsins þann 27.05.2025. Árshlutareikningur er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla um árshlutareikninga, IAS 34. Árshlutareikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.
Fjárhagsdagatal.
Birting uppgjörs Q2 2025 – 29. ágúst 2025
Birting uppgjörs Q3 2025 – 28. nóvember 2025
Nánari upplýsingar. Stefán Friðriksson, forstjóri, spurningar sendist á [email protected]
Viðhengi
Ísfélag - kynning ársreiknings 1F 2025 Árshlutauppgjör Ísfélags Q1 2025. tilkynning Ísfélag árshlutareikningur 03 2025